Kalkúninn má vera af hvaða stærð sem er. Steikingartími kalkúns er um 40-50 mín. pr. kg. á 150° hita, án blásturs. Ætíð er best að fylgjast vel með kalkúni í steikingu vegna þess að enginn ofn er eins. Einnig er gott að nota kjöthitamæli og miða við 71° kjarnhita. Gott er að þekja hann með álpappír 2/3 hluta steikingartímans og láta hann síðan brúnast síðasta hluta (u.þ.b. 15 mín) og hækka hitann í 200-250°.
Sumum finnst betra að byrja á því að brúna hann til að loka honum og halda safanum inni. Ef til staðar er pottjárnspottur þá er hann tilvalinn þ.s. hægt er að loka honum og minnka hættuna á að kalkúnninn brenni.
Hér fyrir neðan er dásamleg uppskrift af smjörgljáa til að smyrja kalkúninn reglulega á meðan steikingu stendur til að koma í veg fyrir að hann brenni og þorni síður upp. Einnig fékkst gott ráð fyrir þá sem ekki eiga pottjárnspott, í þætti Sigurðar Hall á Stöð 2 um að þekja kalkúninn með gömlu hreinu viskustykki sem vætt er vel upp úr bræddu smjöri í stað álpappírsins.
Fyllingin
Hráefni. 4-500 gr svínahakk, 6 brauðsneiðar, grófu eða hvítu, handfylli af sveskjum saxaðar, 1 lítil dós aprókósu, smjör, 1 stór saxaður laukur, 200 gr brytjaðir sveppir, ½ glas kalkúnakrydd, salt og pipar.
Leysið upp brauðsneiðarnar í vatni eða kjúklingasoði. Látið laukinn og sveppina krauma í smjör við vægan hita í 5-10 mínútur. Blandið vel saman við svínahakkið og bætið sveskjum og apríkósunum (án safans) með. Bætið þá kryddblöndunni út í ásamt salt og pipar og fyllið kalkúninn vel. Ef afgangur er af fyllingunni má gjarnan baka hana í formi með kalkúninum í klukkutíma eða svo.
Ef þið hafið ykkar ákveðnu uppskrift af kalkúnafyllingu, með eða án kjöts mæla Pottagaldrar endilega með að krydda hana með þessari kryddblöndu sem inniheldur salvíu og þarf aðeins að bæta salti og pipar.
Fyllinguna má gera daginn áður
Gljái á kalkún
Hráefni: 1 og ½ msk. Creola kryddblanda Pottagaldra eða Kalkúnakrydd Pottagaldra, ¼ litr. appelsínudkjús, 3 msk. limedjús eða sítrónusafi, 1 msk, dijon sinnep, 3 msk. soya sósa, 50 gr. bráðið smjör, 2-3 msk. hunang.
Blandið öllu vel saman í skál. Byrjið á því að nudda salti og hvítum pipar vel á kalkúninn. Penslið síðan kalkúninn vel með gljáanum og hefið steikingu hans. Penslið af og til með gljáanum á meðan steiking stendur yfir, sérstaklega ef að álpappírinn/eða viskustykkið hefur verið fjarlægt og skinnið að brúnast.
Himnesk sósa
Brúnið og steikið fóarnið úr kalkúninum ásamt vængjastubbunum. Kryddið það með 1-2 tsk. Kalkúnakryddinu ásamt salt, pipar og lárviðarlaufum um leið og steikt er. Einnig má bæta við 1-2 tsk. Creola. Hellið vatni út á og sjóðið í góðan klukkutíma. Gjarnan má bæta kalkúna- eða kjúklingakrafti út í vatnið ásamt lauk, sellerý og gulrótum til að fá starkara bragð. Sjóðið rétt yfir suðumarki í góðan klukkutíma og síið. Þegar kalkúninn er full steiktur skal sía soð hans út í sósusoðið. Sjóðið áfram í 15 mín. Ef soðið er enn gruggugt má sía það aftur. Bætið þá út í soðið restinni af gljáanum ásamt rjóma. Þykkið eftir smekk. Ef portvín eða líkjörar eru til í vínskápnum má alltaf smakka sósuna til með þeim eða góðu með ribserjageli en gljáinn gerir það besta fyrir sósuna.